Opinber einkafyrirtæki

Sælir netverjar!

Það koma tímabil í lífi okkar allra þegar einkalífið og vinnan éta allan tíma sólarhringsins og enginn tími gefst fyrir gáfulegar hugrenningar um málefni þjóðarinnar. Höfundur er einmitt að klára eitt slíkt tímabil. Fátt er eins þroskandi fyrir sálina en slík tímabil ef maður einungis opnar hugann og reynir að læra af því sem fyrir mann hefur komið.

 En að málefni dagsins. Orkuveita Reykjavíkur og brölt hennar. Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að OR þurfi að fara í gengum nafnaskoðun og ákveða hvert hlutverk hennar er til framtíðar. Þetta er greinilega að klikka í dag og sem betur fer eru viðvörunarljós að kvikna alls staðar. Þessi uppákoma á eftir að verða OR til góðs. Núna munu menn loks fara í alvöru umræður um hlutverk fyrirtækisins.

Svo horfði ég á "drottningarviðtal" við Bjarna Ármannsson. Þar var farið um hann silkihönskum og hann mærður á alla kanta. Ekkert var tekið á hlut hans í klúðrinu í REI þó að REI væri sagt tilefni viðtalsins. Eva María, hvern fjárann ertu að hugsa að gera þetta ? Þetta skaðar ykkur Bjarna bæði.

Og Bjarni, þú ert maður sem ég hef borið mikla virðingu fyrir gegnum tíðina. Af hverju leiðréttir þú ekki þinn hlut í græðgisvæðingunni í kringum REI? Ég veit að þú munt, er fram líða stundir, fá þitt og átt það þá örugglega skilið.  Í dag áttu það ekki. Ef þú dregur þín kaup ekki til baka er það eina rétta að láta þig fara sem stjórnarformann. Þú ert þá að setja eigin hagsmuni ofar en fyrirtækisins og ert þar með óhæfur. Þú ert alltof klár til að falla í þá gryfju. Vertu maður að meiri og leiðréttu þetta.


Íslenskt golf

Sælir golfarar og þið hin sem ekki eruð sýkt af golfbakteríunni !

Ég var svo heppinn að fara í golfskóla á Spáni í vor. Þar var stokkið út á hverjum degi á stuttbuxum einum fata og spilað golf allan daginn.

Þessu er örlítið öðruvisi farið hérna á klakkanum. Ef spila skal golf, er aðal undirbúningurinn falinn í því að skoða hvernig klæða skal af sér veðrið. Golf á Íslandi minnir eiginlega á vetraríþrótt frekar en golfið sem Tiger Woods og félagar spila. Ef þar bærir hár á höfði eða fellur dropi úr lofti er óðara öllu frestað þar til óveðrinu hefur slotað. Undantekning eru Skotar frændur okkar sem ekki kalla allt ömmu sína í þessum efnum, enda skyldir okkur. Er nema von að manni finnist golf vera allt önnur íþrótt á Íslandi en erlendis?

Í framhaldi af þessu...Ég talaði á Skype við bróður minn um daginn, en hann býr á Nýja Sjálandi. Hann tjáði mér að hann hefði fingurbrotið sig á níundu holu. Svo var ég truflaður og náði ekki að spyrja hann hvernig þetta væri eiginlega hægt. Enn hef ég ekki náð í hann aftur til að spyrja hann um þetta. Svo spurning dagsins er, hvernig fingurbrýtur maður sig í golfi. Spyr sá sem ekki veit.


Einkavinavæðing SPRON

Sælir netverjar.

Þá er einkavinavæðingu SPRON að ljúka með samþykkt Fjármálaeftirlitsins. Pétur Blöndal og félagar, sem vinna eftir viðskiptahugmyndinni "Fé án hirðis er vont fé, hirðum það" hafa unnið. Mín samúð er með viðskiptavinum SPRON sem ekki fengu stofnfé eins og vinir stjórnarinnar fengu,  og sjá eftir arði sinna viðskipta í hendur annarra.

Væntanlega snúa Pétur og félagar sér næst að því að tryggja einkavæðingu Bláa gullsins. Það er algjörlega ófært að það sé í eigu almennings. Almenningur kann ekkert með auðlindir að fara né að græða á þeim í hvelli. Góðu hirðarnir, Pétur Blöndal og félagar kunna þetta miklu betur. Tilgangur svona auðlinda er að græða á þeim strax en ekki nýta þær í þágu almennings, ekki satt ? Langtímahagsmunir ? Í núvirðisreikningi nútíma græðgi eru þeir fljótt afskrifaðir.....


Skíðasnjór og snjóframleiðsla

Sælir netverjar.

Á þessum árstíma fer maður að horfa til fjalla og velta fyrir sér hvenær skíðasnjórinn muni koma. Fyrir okkur höfuðborgarbúana var síðasti vetur sorglegur. Oft var frábært veður en skíðasnjóinn vantaði. Oft var því horft löngunaraugum til fjalla í frábæru vetrarveðri, en því miður vantaði hvíta litinn á fjöllin. Síðasta vor var oft rætt um snjóframleiðslu og eftir frumkvæði Orkuveitunnar trúði ég því að menn ætluðu að drífa í því að koma framleiðslu í gang sem fyrst.

Nú er nýr vetur að ganga í garð. Hvergi sé ég minnst á snjóframleiðslu í Bláfjöllum eða Skálafelli. Var eitthvað gert til að koma þessu á koppinn ? Ég hef yfirheyrt vini og kunningja og allir koma af fjöllum. Enginn veit neitt.  Vitið þið eitthvað?

Ég vil gjarnan sjá Reykvíkinga taka sig saman í andlitinu og hafa metnað til að hafa fleiri en 15 skíðadaga á ári í Bláfjöllum og engan í Skálafelli. Ég bið ekki um 150 daga eins og Akureyringar hafa, bara eitthvað í áttina. Ég veit að ég tala fyrir munn margra. Svo ÍTR, hvar er snjóframleiðslukerfið sem lofað var í Bláfjöllin eða í Skálafellið? Okkur langar að sjá efndir !


Netþjónabú

Sælir netverjar.

Ég fór á ráðstefnu um netþjónabú í síðustu viku. Ekki sú fyrsta og örugglega ekki sú síðasta enda hluti af því sem ég starfa við. Ég tók eftir því að umræðan er loks farinn að þroskast aðeins. Við erum hætt að nota svona ráðstefnur til að segja hvort öðru hvað netþjónabú séu og hvað Ísland er frábært land fyrir svona starfsemi.

Núna loksins eru menn farnir að skoða möguleika Íslands á gagnrýnan hátt og átta sig á raunverulegu virði Íslands fyrir staðsetningu netþjónabúa. Einnig er umræðan farinn að fjalla um mögulega gerð netþjónabúa sem unnt er að setja upp hér og markaðssetja erlendis. Tækifærin eru mörg en nauðsynlegt er að átta sig á hvað er raunhæft að gera og hvað ekki. Nú trúi ég því að loks fari að komast hreyfing á þessi mál. Það eru spennandi tímar framundan.

Enn er verið að fjalla um rafmagn og mögulega rafmagnsnotkun búanna. Getur hún skipt tugum megavatta með notkunarmynstri stóriðju. Þetta eru því áhugverðir viðskiptavinir fyrir orkufyrirtækin í framtíðinni. Svo fór ég að hugsa. Umræðan í dag er þannig að ekkert má orðið virkja. Hvert einasta vatnsfall eða jarðhitasvæði virðist eiga að friða. Skyldi það breyta einverju í umræðunni ef virkja á fyrir netþjónabú frekar en stóriðju ? Verður náttúran eitthvað minna virði? Þetta er eiginlega efni í sér pistil...


Er íslenskan mín ekki gjaldgeng lengur ?

Sælir netverjar.

Stjúpdóttir mín rakst á bloggið mitt á netinu. Hún hafði bara eitt um það að segja: "Svakalega skrifar þú skrítna íslensku !". Það er greinilegt að ég skrifa ekki á unglingatungumálinu og hlýtur það að vera órækt merki um að ég sé að verða gamall.  Skyldu unglingarnir skilja orðið órækt? Aðal lýsingarorð nútímans virðist vera "bara eitthvað".

Ég er reyndar viss um að daglegt tungumál mitt á unglingsárunum hafi verið ansi ólíkt ritmáli foreldra minna. Okkar lýsingarorð var til dæmis "hrikalegt" sem notað var í tíma og ótíma.

En ég er reyndar viss um að pabbi skilji þessi skrif fínt. Kannski er það fjörtíu ára verk að læra íslensku almennilega?


Um óskoðaða bíla og lausn á því

Sælir bílstjórar.

Sérstaklega þið sem sitjið með með mér fastir á Miklubrautinni á hverjum degi. Það gefst ágætis tími til að spá og spekúlera þar sem maður situr í umferðinni og fer bara fetið. Að sjálfsögðu fara hinar akreinarnar alltaf hraðar, það er lögmál eins og allir vita. Þá er að finna upp á einhverju sér til dundurs. Ég prófaði um daginn að telja hvað marga bíla ég sæi sem væru óskoðaðir. Ég leitaði að skoðunarmiðum merktum 07 og eldri. Og þar sem 07 miðar voru á bílum þurfti númerið að enda á 5 eða lægra. Þetta eru óskoðaðir bílar. Niðurstaðan ? Satt best að segja fylltist ég skelfingu. Ég taldi óskoðaða bíla í tugum á örskömmum tíma. Eru menn alveg hættir að láta skoða bílana sína?

Ég man eftir umræðum um þetta ekki alls fyrir löngu. Greinilegt er að fólk álítur sig komast upp með að láta ekki skoða bílana sína. Ástæðan er einfaldlega sú að yfirlýst stefna yfirvalda er að taka ekki á þessu. Lögreglan hefur einfaldlega ekki mannskap til þess. Þá spyr ég, af hverju erum við þá að hafa lög sem krefjast þess að við skoðum bíla? Ég held að það sé rangt að hafa lög sem við ætlum ekki að framfylgja. Það grefur undan virðingu borgaranna fyrir lögum og reglum. Ekki er á það bætandi.

Ef löggjafinn ætlar ekki að framfylgja þessum lögum eins og þarf, legg ég til að þessi lög verði felld niður og lögbundinni skoðun bifreiða verði hætt. Látum tryggingarfélögin taka þetta yfir. Óskoðaður bíll fær á sig hærri iðgjöld því hann er hættulegri í umferðinni. Þar með taka tryggingarfélögin yfir þetta eftirlit og sjá til þess að létta svo hressilega í buddum landsmanna að þeir flykkjast á skoðunarstöðvarnar.

Bjóðum svo út eftirlit með því að bifreiðar séu tryggðar sem er ekki síður mikilvægt mál. Eftirlitsaðili fær hluta af sektargreiðslu í laun sem tryggir nauðsynlega hvatningu. Þar með er tryggt að bifreiðar verði skoðaðar og lögreglan getur sinnt meira áríðandi málum með sínum takmarkaða mannafla.

Nýtum afl og frumkvæði einkamarkaðarins til að taka á þessum málum.

 


Gæði íslensks háskólanáms

Sælir netverjar.

Menntamál eru mér kær. Sjálfur hef ég farið "alla leið" í námi og foreldrar mínir voru báðir kennarar.  Nám og menntun er því mér alltaf ofarlega í huga.

Þorgerður Katrín menntamálaráðherra skrifaði áhugaverða grein í Moggann um helgina. Hann fjallar um að setja upp gæðaeftirlit með íslensku háskólanámi og óháða úttekt erlendra fagmanna á stöðu íslenskrar háskólamenntunar. Þetta er þarft og tímabært framtak.

Ég er mikill stuðningsmaður þess að búin séu til menntastörf úti á landi og háskólar og háskólasetur eru ein af fáum leiðum sem farnar hafa verið sem hafa virkað til að búa til þessi störf. Það að búa til þessi störf er það sem skiptir landsbyggðina mestu máli til að fólk geti sest að úti á landi eftir nám. Þið þekkið öll frasann "ég menntaði mig úr bænum ......" sem er því miður alltof sannur.

Háskólastofnanir á Íslandi þurfa að uppfylla alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til háskólanáms. Nemendum er enginn greiði gerður með því að búa til lélegt nám með lélegri kennslu og kalla það svo einhverju fínu nafni sem er umfram það sem námið stendur undir. Ég er hræddur um að þessi dæmi finnist í íslensku háskólaumhverfi. Því held ég að sú úttekt sem menntamálaráðherra boðar muni skila, í mörgum tilfellum, býsna óþægilegum niðurstöðum. Ég hvet hins vegar menn til að láta ekki deigan síga þó að þeir fái harða en raunsæja dóma. Þeir eru einungis til að læra af og segja hvað þarf að gera til að nám uppfylli alþjóðlegar kröfur. Gerið þessar kröfur að ykkar og lærið af gagnrýninni. Það er enginn ástæða til þess að við getum ekki gert jafnvel eða betur en erlendir háskólar. Þessi orð koma frá manni sem kynnst hefur mörgum háskólum erlendis og þar á meðal mörgum þeirra bestu. Ég veit að við Íslendingar getum þetta auðveldlega.


Lifðu lífinu

Sælir netverjar.

Ein af mínum uppáhaldsbíómyndum er Rocky Horror Picture Show. Þessi mynd er löngu orðin "klassíker " í kvikmyndasögunni. Auk tónlistarinnar er ég hrifinn af boðskapnum í myndinni. Í lokalaginu er viðlagið "Don't dream it, be it" sem lauslega útleggst "Ekki dreyma um lífið, vertu lífið". Hér er verið að segja okkur að bíða ekki eftir því að það gerist í okkar lífi sem okkur dreymir um, heldur eigum við að láta hlutina gerast sjálf.

Við erum öll ósköp löt inn við beinið. Auðvelda leiðin í lífinu er að bíða eftir því að það komi til okkar. En því miður gerist það ekki alltaf. Þá fyllumst við vonbrigðum og leggjumst í bölmóð og neikvæðni. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort við séum skemmtilegt fólk þegar þessi gállinn er á okkur. Þá er nú betri leið að gera það sem okkur langar og hætta að bíða. Láta hlutina gerast í stað þess að bíða eftir þeim. Lífið ykkar á eftir að verða miklu skemmtilegra. Ekki vera hrædd við mistök. Þau eru okkar besti fjársjóður til að verða að betri manni, ef við nýtum þau til að læra af þeim.

Eigið góða helgi.


Pólitískar skoðanir Íslendinga

Sælir netverjar.

Ég hef þá bjargföstu skoðun að flestir Íslendingar séu kratar. Spjallið við ættingja ykkar í boðum um pólitík og ég er sannfærður um að þið komist að sömu niðurstöðu. Þá er hægt að velta því fyrir sér af hverju ekki er til risastór krataflokkur í landinu. Já , þessarar spurningar hefur oft verið spurt. Mín skoðun er sú að flestir eða allir flokkar í landinu séu krataflokkar af einni eða annarri gerð. Af hverju er ég þá í sjálfstæðisflokknum en ekki í einhverjum öðrum flokki ?  Mín ákvörðun byggðist fyrst og fremst á því að þarna var fólk sem var hvað líkast mér í hugsun og væntingum til lífsins. En við erum flest kratar inn við beinið. Við viljum nýta kraft kapítalismans til að búa til stóra köku, en skipta henni þannig að þeir sem eru þurfandi fái að njóta þess. Frá þessu eru undantekningar. Stundum ná þær yfirhöndinni í ákveðum flokkum svo sem í mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum. Þá er ég spurður af hverju ég ekki styðji aðra flokka. Ég á bara eitt svar. Hvar á maður að stunda trúboðið ef  ekki meðal heiðingjanna?

Ég er ánægður með núverandi stjórnarmynstur. Þetta er efnileg kratastjórn sem vonandi verður  langlíf og skili miklu fyrir íslenskt þjóðarbú. Ég vona bara að öfgastefnur til hægri og vinstri eyðileggi ekki þessa stjórn. Það er á ábyrgð okkar krata í öllum flokkum að svo gerist ekki.


Næsta síða »

Um bloggið

Halldór Pétursson lætur móðann mása...

Nánari fróðleikur...

Halldór Pétursson
Höfundur er ríkjandi heimsmeistari í Hornafjarðarmanna.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband