Færsluflokkur: Lífstíll
1.9.2007 | 20:45
Lifðu lífinu
Sælir netverjar.
Ein af mínum uppáhaldsbíómyndum er Rocky Horror Picture Show. Þessi mynd er löngu orðin "klassíker " í kvikmyndasögunni. Auk tónlistarinnar er ég hrifinn af boðskapnum í myndinni. Í lokalaginu er viðlagið "Don't dream it, be it" sem lauslega útleggst "Ekki dreyma um lífið, vertu lífið". Hér er verið að segja okkur að bíða ekki eftir því að það gerist í okkar lífi sem okkur dreymir um, heldur eigum við að láta hlutina gerast sjálf.
Við erum öll ósköp löt inn við beinið. Auðvelda leiðin í lífinu er að bíða eftir því að það komi til okkar. En því miður gerist það ekki alltaf. Þá fyllumst við vonbrigðum og leggjumst í bölmóð og neikvæðni. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort við séum skemmtilegt fólk þegar þessi gállinn er á okkur. Þá er nú betri leið að gera það sem okkur langar og hætta að bíða. Láta hlutina gerast í stað þess að bíða eftir þeim. Lífið ykkar á eftir að verða miklu skemmtilegra. Ekki vera hrædd við mistök. Þau eru okkar besti fjársjóður til að verða að betri manni, ef við nýtum þau til að læra af þeim.
Eigið góða helgi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.8.2007 | 08:19
Esjuganga
Sælir netverjar.
Gærdagurinn var bæði mikill vinnudagur og dagur mikillar hreyfingar. Ég ætla að segja ykkur frá hreyfingunni.
Hreyfing dagsins byrjaði með hinum venjubundna hádegispallatíma hjá mér í Laugum. Þarna mæti ég eins oft og ég get og sprikla með músík ásamt öðrum sem gaman hafa af frúarleikfimi. Um kvöldmatarleytið skellti ég mér síðan í Esjugöngu ásamt betri helmingnum. Fjölmenni var á fjallinu. Við gengum upp gömlu leiðina og niður þá nýrri. Ég tók sérstaklega eftir því að fastagestir á Esjunni virðast heldur velja gömlu leiðina. Mér virðist ástæðan vera sú að hún er einfaldlega betri þó hún sé brattari. Á nýju leiðinni er mikill grjótkafli ofarlega og þar er einfaldlega seinfarið og hættulegt að fara yfir. Hann mætti gjarnan laga.
Við höfum ekki farið á Esjuna í tvö ár. Því vorum við að prófa að fara nýju leiðina í gegnum klettabeltið í fyrsta skipti. Þessa með keðjunni. Þetta er auðvelt að fara núna. Gott framtak. Einnig er ég hrifinn af skiltunum á leiðinni upp fjallið. Skemmtilegur fróðleikur þar. Við mundum eftir að krota í gestabókina. Sýndum hana nokkrum unglingum sem þarna voru á fjallinu í fyrsta skipti. Þeim fannst þetta skemmtilegur siður, að skrifa í gestabók á fjallstindum.
Göngutúr á Þverfellshorn krefst þess að maður sé vel skóaður. Ég mæli með gönguskóm, sérstaklega ef ætlunin er að fara alla leið á tindinn. Undir klettabeltinu efst í fjallinu hittum við unga erlenda konu. Hún sat þar og beið eftir félaga sínum sem hafði farið alla leið upp. Á niðurleiðinni sáum við hana aftur ásamt félaganum. Hún virtist vera hrædd við að fara niður. Við sáum skýringuna er við komum nær. Hún var á támjóum, hælaháum skóm. Á þeim hafði hún farið upp fjallið upp undir klettabeltið. Það er greinilega ekki góð hugmynd að fara á Esjuna á háum hælum. Kannski ætti að setja viðvörunarskilti á bílastæðið við uppgönguleiðina. "Varúð, ekki fyrir háa hæla né blankskó". Hafa þetta á nokkrum tungumálum svona til öryggis.
Við fórum upp á klukkutíma og tókum annan klukkutíma í niðurferðina. Gott að hafa svona gönguleiðir með nesti á leiðinni. Krækiberin brögðuðust vel og nóg var af þeim við stíginn til að tína upp í sig. Enduðum svo í pottinum heima um kvöldið til að mýkja lappirnar, teygðum þar úr okkur undir stjörnubjörtum himni og fylgdumst með gervitunglum þjóta um himininn.
Svona eiga dagar að vera.....
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2007 | 16:36
Laugardagspistill
Sælir netverjar.
Á laugardögum fer ég gjarnan í Laugar og æfi ásamt konunni. Ég er það sem á útlensku er kallað "gym rat" sem útleggst væntanlega sem Laugarotta ef við einskorðum þetta við líkamsræktarstöðina Laugar. Í Laugum er gaman að velta fyrir sér Íslendingnum. Þar má nú sjá að farfuglatímabil haustsins er að hefjast. Í líkamsræktarstöðvum eru nefnilega þrjú farfuglatímabil. Það fyrsta hefst í byrjun september og nær eitthvað fram í október. Þar eru mættir þeir sem ætla að reyna að takast á við afleiðingar grillveislna sumarsins með tilheyrandi bjór og léttvínsdrykkju. Næsta tímabil hefst svo í janúarbyrjun. Þetta er áramótaheitatímabilið. Það endist eitthvað fram í febrúar eða þar til menn hafa fundið nægilega góða ástæðu til að mæta ekki lengur. Síðasta tímabilið er svo það sem kalla má "síðastisénsfyrirströndina" tímabilið. Þetta skýrir sig alveg sjálft. Þetta tímabil hefst í lok maí og stendur í um það bil mánuð.
Íslendingurinn vill heldur ekki leggja bílnum sínum of langt frá dyrum stöðvanna. Of erfitt er er að labba meira en 50 metra að innganginum. Því er lagt ólöglega þar sem það er unnt og frekar er lagt í drullusvaði heldur en á malbiki, ef það er nokkrum metrum nær. Sérstaklega er gaman að velta því fyrir sér að þetta fólk sem erfitt á með að labba langt að stöðinni frá bílnum, fer gjarnan beint á göngubretti og labbar þar löngum um leið og það er komið inn. Eftir miklar pælingar um þessa hegðun er einungis hægt að álykta að viðkomandi séu með einhvers konar ofnæmi fyrir fersku lofti og þurfi fremur á súrum svitailmi stöðvarinnar að halda ef það ætlar að ganga eitthvað. Of mikið súrefni gæti verið því um megn. Því gæti jafnvel farið að langa í göngutúr í góða veðrinu!
Að lokum heilræði til ykkar sem eruð ekki að hreyfa ykkur þessa dagana. Ekki stoppa þegar þið eruð byrjuð, það er svo fjári erfitt að byrja aftur. Og gerið það sem ykkur finnst skemmtilegt.
Megið þið eiga góða helgi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Halldór Pétursson lætur móðann mása...
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar