25.8.2007 | 16:36
Laugardagspistill
Sælir netverjar.
Á laugardögum fer ég gjarnan í Laugar og æfi ásamt konunni. Ég er það sem á útlensku er kallað "gym rat" sem útleggst væntanlega sem Laugarotta ef við einskorðum þetta við líkamsræktarstöðina Laugar. Í Laugum er gaman að velta fyrir sér Íslendingnum. Þar má nú sjá að farfuglatímabil haustsins er að hefjast. Í líkamsræktarstöðvum eru nefnilega þrjú farfuglatímabil. Það fyrsta hefst í byrjun september og nær eitthvað fram í október. Þar eru mættir þeir sem ætla að reyna að takast á við afleiðingar grillveislna sumarsins með tilheyrandi bjór og léttvínsdrykkju. Næsta tímabil hefst svo í janúarbyrjun. Þetta er áramótaheitatímabilið. Það endist eitthvað fram í febrúar eða þar til menn hafa fundið nægilega góða ástæðu til að mæta ekki lengur. Síðasta tímabilið er svo það sem kalla má "síðastisénsfyrirströndina" tímabilið. Þetta skýrir sig alveg sjálft. Þetta tímabil hefst í lok maí og stendur í um það bil mánuð.
Íslendingurinn vill heldur ekki leggja bílnum sínum of langt frá dyrum stöðvanna. Of erfitt er er að labba meira en 50 metra að innganginum. Því er lagt ólöglega þar sem það er unnt og frekar er lagt í drullusvaði heldur en á malbiki, ef það er nokkrum metrum nær. Sérstaklega er gaman að velta því fyrir sér að þetta fólk sem erfitt á með að labba langt að stöðinni frá bílnum, fer gjarnan beint á göngubretti og labbar þar löngum um leið og það er komið inn. Eftir miklar pælingar um þessa hegðun er einungis hægt að álykta að viðkomandi séu með einhvers konar ofnæmi fyrir fersku lofti og þurfi fremur á súrum svitailmi stöðvarinnar að halda ef það ætlar að ganga eitthvað. Of mikið súrefni gæti verið því um megn. Því gæti jafnvel farið að langa í göngutúr í góða veðrinu!
Að lokum heilræði til ykkar sem eruð ekki að hreyfa ykkur þessa dagana. Ekki stoppa þegar þið eruð byrjuð, það er svo fjári erfitt að byrja aftur. Og gerið það sem ykkur finnst skemmtilegt.
Megið þið eiga góða helgi.
Um bloggið
Halldór Pétursson lætur móðann mása...
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.