Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Um framtíðarsýn í íslenskri pólitík

Sælir netverjar.
Í síðustu kosningabaráttu var eftirtektarvert hvað lítið er fjallað um framtíðarsýn hjá stjórnmálaflokkunum. Enginn virðist tilbúinn að segja hvernig íslenskt þjóðfélag á að líta út árið 2020 til dæmis né hvernig þeir sjái heiminn hugsanlega verða. Ef engin er framtíðarsýnin er heldur ekki hægt að setja fram neina stefnu af viti því ekki vita menn hvert þeir ætla að fara. Þess vegna einkennist kosningabarátta af vandamálum líðandi stundar og loforðum tengdum þeim.

Á ráðstefnum sem ég hef sótt erlendis hef ég stundum verið þeirra gæfu aðnjótandi að hlusta á framtíðarfræðinga (e. futurist) stórfyrirtækja sem hafa í fyrirlestrum útlistað hvernig unnið er að framtíðarsýn fyrirtækjanna um það hvernig heimurinn muni þróast og hvernig það tengist stefnumótunarvinnu þeirra. Þetta hefur stundum verið kynnt sem framtíðarsögur á íslensku. Þetta hef ég séð hjá bæði Microsoft og Shell. Þessi aðferðafræði myndi að mínu viti henta íslenskum stjórnmálaflokkum vel og geta verið vítamínsprauta í málefnavinnu þeirra. Stefnur yrðu skýrari og unnt yrði að keyra kosningabaráttur á mun áhrifameiri hátt.

Einnig hjálpar svona vinna við að taka á vandamálum dagsins í dag. Sem dæmi vil ég nefna rafmagnsbíla. Áberandi er hve vandræðaleg meðhöndlun stjórnvalda er á á kröfum um að setja rafmagnsbílavæðingu í forgang. Vandamálið virðist mér fyrst og fremst vera skattalegs eðlis, enda bíla- og bensínskattar með stærri tekjupóstum ríkisins. Skýr framtíðarsýn um rafmagnsbílavæðingu þjóðarinnar myndi skila sér í markmiðasetningu og skilgreiningum á því hvað þurfi til til að markmiðin náist. Vinnuhópar sem t.d. fjölluðu um hvernig skatttekjum þjóðarinnar yrði aflað í framtíðinni yrðu settir af stað til að leysa skattamálið.  Umræðan færi þannig á málefnalegt plan sem yrði grunnur á sátt um hvernig að þessu skuli staðið, í stað þeirrar vandræðalegu þagnar sem nú ríkir. 

Þjóðin þarf á meiri langtímahugsun að halda. Til eru aðferðir um hvernig þetta er gert sem eru mikið notaðar af stórfyrirtækjum erlendis og örugglega stjórnvöldum líka.  Ég hvet flokkana til að taka upp svona vinnu. Stjórnmálaumræðan yrði miklu mun skemmtilegri ef hún fjallaði um svona mál en ekki einungis vandamál dagsins í dag. Mér finnst einnig athugunarvert hvort Alþingi sjálft ætti ekki að skoða framtíðina með svona fræðum sem grunn að sínum lagasetningum.  

Framtíðarfræði er vannýtt auðlind í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Ég hvet stjórnmálaflokkana, sérstaklega minn flokk Sjálfstæðisflokkinn, til að nýta sér þessi fræði til hagsbóta fyrir þjóðina.


Umferðin í miðborginni

Til hamingju HR með nýja og frábæra staðsetningu skólans.  Megi hann vaxa og dafna sem aldrei fyrr.

En ekki skil ég hvernig menn ætla að tryggja að umferðin verði í lagi á þessu svæði með nýrri staðsetningu HR. Það er ábyrgðarhluti að taka svona ákvarðanir án þess að skoða hvaða áhrif þetta hefur á umferðarálagið. Umferðin er nú þegar þannig að ekkert er á hana bætandi. Ég spái miklu umferðaröngþveiti þarna og satt best að segja sé ég ekki hvernig hægt að bæta umferðina þarna nema með stóraðgerðum. Þær yrðu væntanleg að hluta á kostnað ríkisins sem þjóðvegir í þéttbýli.

Svo ég spyr, hvaða áhrif hefur þessi flutningar á  starfsemi  HR á umferðina og hvernig ætla menn að leysa það mál ?


mbl.is Fyrsta skóflustungan að nýbyggingu HR tekin í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur um vatnalögin og "Bláa gullið"

Sælir netverjar.

Stundum hefur maður á tilfinningunni að orð manns verði að áhrínsorðum samanber pistilinn minn í gær. Í fréttum í gær lýsti Katrin Júlíusdóttir þingkona að Samfylkingin ætlaði sér að taka upp vatnalögin á þessu þingi og fara yfir málið frá grunni. Mæltu kvenna heilust !  Steingrímur formaður VG sat þarna á móti henni í umræðum um vatnsréttindi og úthlutun þeirra til Landsvirkjunar, gat ekki annað en tekið undir orð hennar um vatnalögin og hefur örugglega glaðst við. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að flokksbræður mínir í Sjálfstæðisflokknum séu ekki alveg jafn kátir.  ÞEir vörðu þessi lög með kjafti og klóm á síðasta þingi. Nema þeir hafi séð að sér í sumar. Vonum að svo sé. Batnandi mönnum er best að lifa og ég þekki fullt af skynsömu fólki í flokknum með hjartað á réttum stað.

Vonandi bera menn gæfu til að lesa stjórnarskránna og sammælast um það að vatnið sjálft sé auðlind í eigu þjóðarinnar. Ekki sé hægt að afhenda það einkaaðilum frekar en loftið sem við öndum að okkur. Ég skal alveg fallast á að orkan sem í vatninu felst er það fer um landið sé eign landeiganda, enda er það, held ég, almennt viðurkennt af öllum. En ekki vatnið sjálft. Bláa gullið er eign þjóðarinnar.


Um vatnalögin umdeildu og "Bláa gullið"

Ég er áhugamaður um að auðlindir þjóðarinnar haldist í þjóðareign. Ég vil ekki sjá þeim úthlutað með misvitrum aðferðum til einkaaðila sem síðan mjólka þær að eigin vild án þess að taka tillit til hagsmuna þjóðarinnar. Kvótakerfið er jú vonda dæmið sem allir þekkja og hvaða áhrif það hefur haft á byggðina í landinu.

En það er annað svona dæmi í gangi. Vatnið , "Bláa gullið", þessi framtíðarauðlind þjóðarinnar, er að ganga almenningi úr greipum. Þetta er verið að gera með vatnalögunum umdeildu sem fljótlega eiga að taka gildi. Þetta reyndi stjórnarandstaðan að stoppa en náði aðeins fram frestun fram á haustþing. Og já, Samfylkingin var á móti þessum lögum......

Í ljósi þessa má nefna að tvær merkilegar fréttir hafa birst í Morgunblaðinu. Um síðustu mánaðarmót birtist frétt um Bláa gullið" og verðmæti þess fyrir þjóðina. Og nokkru áður var á forsíðu Morgunblaðsins frétt um Vatnalögin og reynt að veikum mætti að rökstyðja þau enn eina ferðina.

Það sem þetta segir okkur að auðmenn þjóðarinnar hafa fyrir löngu áttað sig á þessu tækifæri og eru nú að tryggja sér yfirráðin yfir auðlindinni. Vatnalögin þjóna einungis þessum tilgangi. Og hver er svo röksemdin að baki vatnalögunum? Jú, einungis er verið staðfesta hæstaréttardóma sem fallið hafa vegna eldri vatnalaga. Sumsé túlkun hæstaréttar á 80 ára gömlum lögum sem voru barn síns tíma á að vera stefna þjóðarinnar í eignarhaldi á vatni. Til hvers erum við eiginlega að kjósa menn á þing? Eiga þeir ekki að móta sér sjálfir skoðanir og framfylgja þeim? Er hæstiréttur allt í einu orðin stefnumarkandi fyrir þjóðina í auðlindamálum? Ég er ekki sáttur. Mér finnst hér stolið frá almenningi því sem varið er í stjórnarskrá með ákvæðinu um að auðlindir séu sameign þjóðarinnar. Vatnsdropinn er þarna óumdeilanlega talin með að áliti allra. Og er þetta ekki ein ástæða þess að auðmenn eru að kaupa upp jarðir um allt land? Eru þeir ekki að undirbúa að feta í fótspor Jóns Ólafssonar í vatnsútflutningi?

Ég hvet nú Steingrím og félaga til að taka aftur upp vatnalögin og vernda hagsmuni almennings. Ekkert stendur um þau í stjórnarsáttmála svo Samfylkingin ætti að geta stutt VG og aðra í að fá þá felld úr gildi.


Hver á eiginlega SPRON ?

Ég varð sár er  ég sá fréttina í sjónvarpinu í gær um hlutafélagavæðingu SPRON. Ég sem gamall verkfræðingur og þokkalega töluglöggur að margra áliti, var ekki lengi að sjá að hér er verið að taka tugi milljarða af virði SPRON og færa í vasa stofnfjáreigenda. Samkvæmt fréttinni er SPRON metið á 59 milljarða og þar af  á stofnsjóðurinn ekki nema 9 milljarða. Restin, 50 milljarðar, á að koma í hlut stofnfjáreigenda ef ég skil þetta rétt. Ekki nema von að þeir hafi fjölmennt í Borgarleikhúsið og samþykkt þetta með lófataki! Í fréttinni sagði líka að stofnfjáreigendur væru 1700. 50 milljarðar deilt á 1700 stofnfjáreigendur gera um 30 milljónir á mann. Ekki slæmt það ! Hvað borguðu menn fyrir hlutinn ? Eða borguðu þeir eitthvað ? Fréttamenn afgreiddu þessa frétt athugasemdalaust og voru greinilega ekkert að átta sig á hvað í raun er hér að gerast. Eignum sjóðsins er verið að skipta á milli stofnfjáreigenda. Af hverju ekki allra viðskiptamanna ? Það að gerast stofnfjáreigandi í sparisjóði var og er ekkert sem Jón Jónsson viðskiptavinur fær  að gerast þó hann óski  þess. Nei, að eignast stofnfé var bara fyrir útvalda sem boðið var aðild af stjórnendum sjóðsins. Og þeir fá núna að eiga sparisjóðinn. Ekki nema von að alls staðar sé verið að slást um að gerast stofnfjáreigandi í sparisjóðum um allt land. Þetta er næsta bylgja í einkavinavæðingunni og hún er búin að vera lengi í undirbúningi. Þarna er nefnilega eigendalaust fé sem má leggja undir sig. Við megum eiga von á að aðrir sjóðir fylgi á eftir SPRON, hlutafélagavæðist og gefi eignir sparisjóðanna til stofnfjáreigenda.

 Er ég bjó í Svíþjóð á síðustu öld varð ég vitni að einkavæðingu tryggingafélagsins TryggHansa. Þetta var félag í ekki ósvipaðri eignaraðild og Sparisjóðirnir held ég. Er félagið var hlutafélagavætt var ákveðið að allir viðskiptamenn félagsins fengju hlut eftir veltu. Þar með fengu allir viðskiptamenn félagsins að njóta þess arðs sem þeir höfðu skapað, ekki bara fáir útvaldir eins og í tilfelli SPRON. Af hverju fer SPRON ekki þessa leið ? 

Ég vona innilega að Fjármálaeftirlitið stöðvi þetta rán stofnfjáreigenda á SPRON. Annars sting ég upp á því við viðskiptamenn SPRON að þeir loki reikningum sínum hjá SPRON og leiti annað.


Fyrsta bloggið

Sælir netverjar.

Nú ætla ég að fara að létta aðeins á mér. Ýmislegt sem gerist í okkar þjóðfélagi má betur fara. Hlutverk okkar borgaranna er að benda á það eftir eigin hyggjuviti og  fara fram á úrbætur. Til þess er blogg ágætur vettvangur, ef einhver les það.  Ég ætla sumsé að fara að blogga um stjórnmál og samfélagsmál. Annað fær að flakka með ef tilefni er til.

Hafið gagn og gaman af.


« Fyrri síða

Um bloggið

Halldór Pétursson lætur móðann mása...

Nánari fróðleikur...

Halldór Pétursson
Höfundur er ríkjandi heimsmeistari í Hornafjarðarmanna.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband