Esjuganga

Sælir netverjar.

Gærdagurinn var bæði mikill vinnudagur og dagur mikillar hreyfingar. Ég ætla að segja ykkur frá hreyfingunni.

Hreyfing dagsins byrjaði með hinum venjubundna hádegispallatíma hjá mér í Laugum. Þarna mæti ég eins oft og ég get og sprikla með músík ásamt öðrum sem gaman hafa af frúarleikfimi. Um kvöldmatarleytið skellti ég mér síðan í Esjugöngu ásamt betri helmingnum. Fjölmenni var á fjallinu. Við gengum upp gömlu leiðina og niður þá nýrri. Ég tók sérstaklega eftir því að fastagestir á Esjunni virðast heldur velja gömlu leiðina. Mér virðist ástæðan vera sú að hún er einfaldlega betri þó hún sé brattari. Á nýju leiðinni er mikill grjótkafli ofarlega og þar er einfaldlega seinfarið og hættulegt að fara yfir. Hann mætti gjarnan laga.

Við höfum ekki farið á Esjuna í tvö ár. Því vorum við að prófa að fara nýju leiðina í gegnum klettabeltið í fyrsta skipti. Þessa með keðjunni. Þetta er auðvelt að fara núna. Gott framtak. Einnig er ég hrifinn af skiltunum á leiðinni upp fjallið. Skemmtilegur fróðleikur þar. Við mundum eftir að krota í gestabókina. Sýndum hana nokkrum unglingum sem þarna voru á fjallinu í fyrsta skipti. Þeim fannst þetta skemmtilegur siður, að skrifa í gestabók á fjallstindum.

Göngutúr á Þverfellshorn krefst þess að maður sé vel skóaður. Ég mæli með gönguskóm, sérstaklega ef ætlunin er að fara alla leið á tindinn. Undir klettabeltinu efst í fjallinu hittum við unga erlenda konu. Hún sat þar og beið eftir félaga sínum sem hafði farið alla leið upp.  Á niðurleiðinni sáum við hana aftur ásamt félaganum. Hún virtist vera hrædd við að fara niður. Við sáum skýringuna er við komum nær. Hún var á támjóum, hælaháum skóm. Á þeim hafði hún farið upp fjallið upp undir klettabeltið.  Það er greinilega ekki góð hugmynd að fara á Esjuna á háum hælum. Kannski ætti að setja viðvörunarskilti á bílastæðið við uppgönguleiðina. "Varúð, ekki fyrir háa hæla né blankskó". Hafa þetta á nokkrum tungumálum svona til öryggis. 

Við fórum upp á klukkutíma og tókum annan klukkutíma í niðurferðina. Gott að hafa svona gönguleiðir með nesti á leiðinni. Krækiberin brögðuðust vel og nóg var af þeim við stíginn til að tína upp í sig. Enduðum svo í pottinum heima um kvöldið til að mýkja lappirnar, teygðum þar úr okkur undir stjörnubjörtum himni og fylgdumst með gervitunglum þjóta um himininn. 

Svona eiga dagar að vera.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Halldór Pétursson lætur móðann mása...

Nánari fróðleikur...

Halldór Pétursson
Höfundur er ríkjandi heimsmeistari í Hornafjarðarmanna.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband